Sumarfríið mikla 2004

Thursday, June 09, 2005

3. kafli - Í Víðihlíð

Góðir gestir
Þetta sumar fylgdi góða veðrið Sigurði Pétri hvert sem hann fór, svo hann var í bænum í tvo daga á meðan við héngum inni í rigningu í Víðihlíð.Svo fórum við og sóttum hann og þá kom aftur gott veður. Mamma og pabbi tóku aðeins til hendinni úti við í Víðihlíð, máluðu og gerðu fínt í kringum pottinn og svona stússuðu ýmislegt á meðan við systkinin lékum okkur úti. Svo komu Nonni, Anna Margrét, Haukur, Pétur og Silja í heimsókn til okkar og voru í tvo daga. Það var alveg frábært og mikið fjör hjá okkur krökkunum. Við fórum í jeppabíltúr og sáum margt fallegt og skemmtilegt, til dæmis Gjánna, Stöng og Þjóðveldisbæinn. Svo keyrðum við næstum því alla leið upp á Heklu og sáum næstum því allt Ísland! Jæja eða alla vega góðan part af því.

Farið um allt
Ég var frekar súr þegar þau frændsystkini mín þurftu að fara, en við héldum samt áfram að gera margt skemmtilegt í Víðihlíð næstu fjóra dagana. Við fórum náttúrulega í sund í öllum sundlaugum sem við fundum. Við fórum í Slakka og skoðuðum dýrin, ég fékk meira að segja að halda á kisum og svo sá ég ref. Það fannst mér mjög spennandi. Það mátti ekki klappa honum því hann bítur börn í puttann. Og við skoðuðum Skálholt, fórum á Laugarvatn þar sem við hittum Þórð og fengum að sitja í rútunni hjá honum smá spöl, fórum á Geysi og hittum afa og fengum að setjast inn í rútuna hans og ég fékk meira að segja að setjast við stýrið, og svo fórum við stóran stóran fjallahring, syðri og nyrðri fjallabaksleiðir, með viðkomu við Langasjó. Mér finnst gaman í fjallabíltúr og þegar við vorum búin að fara yfir eina ána sagði ég hátt og snjallt, "þetta er meeeeeeeirrrrra gaman!"

Hvert svo?
Nú var kominn tími til að fara heim og setja í þvottavél og pakka niður fyrir utanlandsferð. Við fórum heim á fimmtudegi og vorum að fara til útlanda eldsnemma á laugardagsmorgni. Um miðnættið á föstudagskvöldinu kviknar allt í einu á einhverjum perum í hausnum á mömmu og hún fattar að hún hafði aldrei borgað litlu hyttuna á tjaldstæðinu sem hún var búin að panta og átti að borga mánuði áður. Svo þau pabbi fóru í örvæntingarfullan leiðangur um internetið að leita að gistingu í Danmörku í viku frá og með deginum eftir, fundu ekkert en skrifuðu hjá sér nokkur símanúmer og lögðu sig svo aðeins áður en við lögðum af stað í flugvélina.

1 Comments:

  • At 4:48 AM, Anonymous Anonymous said…

    lesa allt bloggid, nokkud gott

     

Post a Comment

<< Home