Sumarfríið mikla 2004

Wednesday, June 08, 2005

2. kafli - Í nýja tjaldinu

Nýja tjaldið
Tjaldið reyndist aldeilis vera stórt og flott, með tveimur svefnherbergjum og risastóru fortjaldi. Mamma og pabbi voru eldsnögg að tjalda því við lítinn árós í miðjum Dýrafirði, rétt hjá Hrauni þar sem einhver forfaðir minn bjó. Svo nú gátum við haldið áfram að vera í sumarfríi og fjöri. Við fórum í bíltúr um Kerlingarskarð á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Þar höfðu mamma, pabbi og Sigurður Pétur ætlað að fara á svipuðum árstíma nokkrum árum áður en þá voru stórir snjóskaflar á veginum og alveg ófært. Í þetta sinn var hins vegar allt marautt. Við fórum líka á Flateyri í sund, og keyrðum aðeins í bíltúr þar út með Önundarfirðinum. Og það var aftur komið gott veður svo við vorum líka bara að leika okkur við tjaldið og henda steinum í ána sem er alltaf jafn skemmtilegt.

Allt er þegar þrennt er
Aðra nóttina í nýja tjaldinu vaknaði ég allt í einu háöskrandi upp úr miðnætti. Þá var annað eyrað mitt fullt af einhverju ullabjakki og ég fann hræðilega til, komin með vonda eyrnabólgu. Svo það var ekki um annað að ræða en að fara þriðju neyðarferðina til Ísafjarðar, þar sem læknir kíkti í eyrað mitt og gaf mér síðan meðal og verðlaun. Þá var ég orðin vel sett og við héldum áfram að skoða okkur um. Við fórum meðal annars upp með Mjólkárvirkjun og gömlu leiðina þar yfir á Dynjandisheiði. Það var nú ansi brjálaður vegur! Við vorum líka dugleg að fara í sund og fengum okkur vöfflu og kaffi á Hrafnseyri eftir að hafa á fyrirlestur um Jón Sigurðsson og píanóleik hjá safnverðinum, það er nefnilega alveg skylda og enginn kemst undan því sem kemur á Hrafnseyri.

Vestfirðir kvaddir
Eftir 10 daga útilegu var kominn tími til að halda í bæinn og leyfa Sigurði Pétri aðeins að hitta mömmu sína. Við keyrðum lengi lengi lengi lengi lengi lengi lengi aaaaaaaalla Barðaströndina, hún er ótrúlega löng. Þegar við vorum svo alveg að verða komin fannst mömmu og pabba bíllinn vera eitthvað skrýtinn og héldu að það væri kannski aftur sprungið dekk. Þau stoppuðu á Kjalarnesi og kíktu á dekkin en sáu ekkert athugavert. En bíllinn hélt samt áfram að láta undarlega og þegar þau komu inn í Mosfellsbæ og sáu að dekkjaverkstæðið þar var opið, ákváðu þau að renna þar við og láta kíkja aðeins á dekkin. Þá var nú eiginlega verið að loka, en þegar maðurinn var búinn að líta á dekkin sagði hann að þau fengju ekki að fara á bílnum svona, þeir myndu bara vera lengur og setja ný dekk undir hann. Þá var nefnilega slitinn vírinn í einu dekkinu svo það næsta sem hefði gerst var að það hefði hvellsprungið. Þegar nýju dekkin voru komin undir fórum við með Sigurð Pétur til mömmu sinnar, fórum til ömmu og afa og fengum síðbúinn og vel þeginn kvöldmat, og brunuðum svo loksins beina leið í Víðihlíð.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home